29.12.04

Magnaður kveðskapur eftir skáldið Manna Volgu

Þú ert frekar fatlaus
í feitum skóm.
Sá sem ekki er saklaus
fær engan dóm.

Þetta er algjört bjútí hjá Mannanum. Það sést alla leið út í Drangey að litla greyið er að meina "sá sem er saklaus fær engan dóm". Hann er að ítreka sakleysi sitt en tekst ekki betur en þetta. Þetta er bara hreint æði. Fann þetta hér í kommentum neðar á síðunni áðan og langaði til að teila þessu með ykkur. Over and out. - BHS

Bróðir minn Segulhjarta

Ögn meira félagslíf á manni nú þessa daga sem Viddi er hér. Sjarmurinn dró mig út á Hótel í kvöld. Helvíti gaman á Villunni eins og alltaf, rétt eins og áður fyrr (ég hef barasta andskotakornið ekki farið út á lífið síðan mér var sigað inn í mitt skúmaskot fyrir feilskot á Grettissundi (as in Ermasund) og það var í ágúst.) My season in hell seems over. Lenti ekkii í neinum ryskingum né orðaskaki. Gárunga-Rúna hvergi sýnileg. Bara karlar og karlafjör. Keli mildilega mjúkur eftir jólin, á góðri leið suður í meðferð sýnist okkur. Og sjálfur farinn að gíra sig upp. SaLíst samt ekkert of vel á Voginn. Ekki eins góður og hann var:

"Vonlaust að vera á Vogi núna. Svo mikið af eiturlyfjaliði þarna núna. Í gamla daga voru þetta bara góðir og gegnheilir alkar. Skemmtilegir og gáfaðir menn. Læknar og lögfræðingar. Engin miskunn. Ég var einu sinni á Sogni yfir jól. Bara mesti lúxus sem ég hef komist í. Jafnvel betra en á Balí."

Við skemmtum okkur helvítinu betur yfir speki Kelans og fórum sælir heim í háttinn. Viddi átti þó drulluerfitt með að yfirgefa staðinn þar sem dalían var... já segi ekki meir. Magnað með Vidda. Henn er með hjarta úr segulstáli. Mitt er úr rekavið. Maðksmognum og daufdumbum helvítis rekavið. Og við verandi bræður. Sjálfsagt er það þess vegna sem ég er eins og ég er. Bróðir minn er segulhjarta en sjálfur er ég svarthol. Stay away or you'll be sucked inside. (Afsakið, er drukkinn og þá vellur upp í mér enskan.) Hættur nú.

26.12.04

Kristur meðal snauðra

Jóladagur bar með sér boð. Frammi í Varmahlíð hjá systur kenndri við Skuld. Siþþi mágur kom og sótti mannskapinn, kastaði til okkar kaðli niður úr sex metra háum sterajeppanum. Viddi sveiflaði sér um borð, eldvanur leikarinn, og hífði síðan mömmu eins og frostvanur landhelgisþyrlumaður eftir að ég hafði reipilagt þá gömlu niðri á götunni. Sjálfur kleif ég þrítugan gúmhamarinn með slátt í hjarta. Að keyra á svona jeppa líkist ekki bílferð, minnir heldur á svifnökkva, án þess að ég hafi komið inn í slíkan farkost. Boðið fór fram í stofu þeirra hjóna, frammi fyrir stærsta skermi Norðurlands sem þakinn var helvítis hálfvitum allan tímann sem við jöpluðum á lambinu. Mamma var ofurseld ferlíkinu og sagði ekki orð fyrr en við vorum að tygja okkur. "Já, ætli sé ekki best að fara að koma sér". Annað sagði hún ekki allt boðið sem var þó hannað til að efla með okkur tengslin. Siþþi sagði heldur ekkert, nema það að kjörgripurinn hefði kostað hann einn mánuð á gröfunni og fengist í BT á Akureyri. "Þau eru víða tekin núna, heimabíóin. Og nú getum við horft á allar spólurnar okkar aftur. Náum auðvitað betri nýtingu á þetta þannig, og þurfum þá ekki að kaupa nýjar á meðan, þannig að ég vil meina að þetta margborgi sig." Hló svo eins og tístandi hænuungi. Þannig var það. Ég þagði svosem líka mestan part og fylgdist með Skuldu fitna á meðan Viddi malaði eins og steypustöð um muninn á BT og KS og CD og JMJ og DVD og MTV og GSM og GPS og LCD og LSD. Hann talaði eins og einhver sunnanfrelsari, einhver langt að kominn sérfræðingur sem vissi allt betur en við fávitarnir fyrir norðan og lét sitt mikla sviðsljós skína eins skært og hann gat. Krakkarnir mændu á hann eins og börn á Krist. Já, einmitt. Réttast sagt minnti hann helst á Krist á meðal snauðra, eins og þetta rammíslenska jólaboð væri gamalt málverk eftir óþekktan endurreisnarmeistara sem maður gengur framhjá í Gemäldegallerie án þess að nenna að tékka á nafni listamannsins. Þetta var óbærilegt. (Sorrý, systkin). Börnin litu samt vel út. Höfðu fitnað heilmikið síðan í sumar.

25.12.04

Fangadagskvöld

Aðfangadagskvöld í Roklandinu var þrímennt. Ég, hæstvirtur bróðir Viddi og mamma. Sú gamla bauð upp á hamborgarahrygg og Marlboro. Við þáðum báðir bæði, svona upp á jólin að gera. Viddi fékk möndluna og möndlugjöfina (lopahosur og nýja Geirmundardiskinn. Schade). Aðrar gjafir voru mest prjónaðar, hand- og vél-. Mamma gaf mér KS-peysu og ónefndan reyfara. Ég fékk tár í sál yfir því að hún skuli ekki þekkja mig betur. Viddi gaf mér handbók fyrir fífl sem geta ekki að skrifað en langar samt til að skrifa. Það er semsagt handbók fyrir þá sem vilja skrifa kvikmyndahandrit. Ég á aldrei eftir að opna þá bók og get ekki skipt henni nema fara suður. Bið hann sjálfan kannski bara að gera það fyrir mig. Sátum svo með mömmu og horfðum á einhverja stillimynd að sunnan. Fólk hreyfir sig lítið í kirkjum. Loks var samveran orðin óbærileg og ég pillaði mér niður í bin Laden hellinn góða. Því miður kom V á eftir og vildi spjalla, með koníak í hendi. Ég mátti hlusta á lýsingar á vinnutilhögun í Latabæ, ræðuhöld Magnúsar Scheving í matartímum og alla þá geðveiki, langt fram á nótt. V er heltekinn af þessum bransa sínum. Það var ekki fyrr en ég spurði hvað væri að frétta af Kötlu Mjöll að hann þagnaði og fór síðan upp skömmu síðar. Það lítur út fyrir að Katla muni gjósa strax í janúar. Loksins loksins klukkan þrjú um jólanótt slapp ég svo hingað inn á netið og fann frelsi einstaklingsins á ný. Fjölskyldur eru fjölbreyttar skyldur og lítil gleði. Aðfangadagur fangadagur.

24.12.04

Heimskautajól

Heimskautajólin eru ekki svipur hjá sjón. Hér snjóar ekki lengur. Glansandi blautar hríslur og suðandi malbik meðfram sjónum. Bládagur dreginn yfir regndökka byggð og gular perur í garðinum. Gular og rauðar. Viddi etur kornfleks og Fréttablað undir sumarljósi í eldhúsinu. Mamma stendur fyrir pottum. Aðfangadagur á Króknum. Einhver hafði fyrir því að mála þessa mynd og stilla mér upp fyrir framan hana. Lífið berast manni á stórhátíðum. Ég hefði getað kvænst Sabine og flutt með henni til Göttingen, gerst amtsbókavörður og staðið mína aðfangadaga umvafinn slútandi stóreikum, steinþykkum siðmenningarhúsum og þýskum jólabrosum bryðjandi Stollen og Hölderlin... En einhver hafði annað í huga. Þetta. Glansandi blautar hríslur í ólesnum bæ.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?