20.10.04

Ljóði lífs

Fjalla hér áfram um ljóðaþýðingar í ljósi síðustu færslu og kommenta frá helvítis vinum vorum (wiedergefundene Menschen) á meginlandinu. Málið með þýðingar er að ná ljóðinu lífs yfir á móðurmálið. Ekki dauðu heldur lífs. Svo það nái að anda á íslenskunni. Þá er alveg í lagi að víkja aðeins út frá orginalinum. HP finnst mér ekki nógu frjáls í sinni versjón, of bundinn af línum Hölla sem eru þó ansi frjálslegar í fasi. Um Hamborgarann er lítið að segja. Hann er náttúrlega að reyna að koma þessu yfir á vonlaust tungumál og því dæmdur til að láta sér mistakast. Samt, sé það tekið með í spilið, þá verður að segjast að þetta er fullkomlega andlaust hjá honum. Fullkomlega "holy-and-sober" eins og hann orðar það svo vel sjálfur. "And shade of the Earth" er samt botninn. Helvítis manninum er samt vorkunn. Hann er að reyna að yrkja ljóð á ensku sem tæknilega séð er auðvitað ekki hægt á þessum tímapunkti mannkynssögunnar.

17.10.04

Helmingur lífsins

Birti hér loksins loksins þýðingu mína á þessu frægasta kvæði Hyldjúps.

Hälfte des Lebens

Mit gelben Birnen hänget
Und voll mit wilden Rosen
Das Land in den See,
Ihr holden Schwäne,
Und trunken von Küssen
Tunkt ihr das Haupt
Ins heilignüchterne Wasser

Weh mir, wo nehm' ich, wenn
Es Winter ist, die Blumen, und wo
Den Sonnenschein,
Und Schatten der Erde?
Die Mauern stehn
Sprachlos und kalt, im Winde
Klirren die Fahnen.

Helmingur lífsins

Grænt með gulum perum
og gnægð af villtum rósum
lýtur land
að lygnum fleti
og svimafagrir svanir
drukknir af kossum dýfa
höfði í heilagt vatn.

Ó, hvar finn ég aftur
blóm og sumarblíðu
er breiðir vetur
yfir skamman dag með drífu?
Steinveggir standa
í stillum og þegja.
Hanar í veðrum vaka.


Spurning með lokalínuna. Höski vinur vor ljóðverkamaður við Wannsee er fjandanum ósáttari við hana. Finnst hún of poppuð. Of mikið Eldjárn. Slíkt fari Hölderlin illa. Nú nú: "im Winde klirren die Fahnen" þýðir í raun bara: vindhanar skrölta í vindinum. (Fahnen=Wetterfahnen) Mér finnst hinsvegar flott að hafa þetta "Hanar í veðrum vaka". Það hefur víða merkingu á því ylhýra. Það er vísun í hanann sem vekur: þessir hanar vaka hinsvegar allan veturinn, geta ekki sofið sökum illviðra. Og það er líka vísun í "að láta í veðri vaka". Um leið er hér verið að tala um vindhana og í stað þess að nefna skrölt þeirra berum orðum á lesandinn að heyra það í línunni. Gallinn við þessa helvíti frábæru línu er samt sá að lesandinn þarf eiginlega að þekkja orginálinn til að vita að verið er að tala um VINDHANA en ekki lifandi gogga. Verð líklega bara að gera þá kröfu. Línan er of flott til að breyta henni eða útskýra. "Vindhanar í veðri vaka" hefði verið of mörg atkvæði og auk þess ofstuðlað og of- á allan hátt. Stóla bara á að Fólksi fatti þetta. (Allavega eftir þennan lestur.) Ljóðið ratar til sinna og allt það kjaftæði. Hinir éti skít.

Hvítur dúkur í húsi óhamingjunnar

Fyrsti snjór vetrarins í dag. Fyrsta snjófölin, háhvít og hörþunn. Við fyrstu sýn virðist helvítis staðurinn auðvitað vera aðeins skárri en ella, fallegri friðsælli eitthvað, en samt, eftir sautján mínútur sér maður að það hefur auðvitað ekkert breyst við komu Snævar Himinssonar. Hann breytir jafn miklu og hvítur dúkur í húsi óhamingjunnar. Ef manni líður ömurlega líður manni enn ömurlegra þegar maður er kominn í fín föt. Trúið því eða tjúllist.

8.10.04

Tilbrigði við Steph. An G.

Báran kveður eins og áður
út við fjörusand
en ég á orðið einhvernveginn
ekkert föðurland.

Sit hér einn á Sauðárkróki
að sumbli í eigin skel.
Í stórum sopum, styttri dögum
stundir mínar tel.

Daginn kveð ég eins og áður
einn við lyklaborð.
Ég á orðið einhvernveginn
ekkert nema orð.

1.10.04

"Logi"

Mamma er lengra leidd en ég hélt. Lengra leidd af Ríkissjónvarpinu. Hún kallaði mig Loga í kvöld. Leiðrétti sig svo og sagði "Nei, fyrirgefðu, Bogi." Svo þegar tíu-fréttir voru búnar heyrði ég að hún sagði aftur "Logi!", hélt greinilega að ég væri ennþá uppi. - Traurig. - Datt í hug að hringja upp á sjúkrahús en geri ekki ráð fyrir að sjúkraliðið hafi einhver ráð við þessari RÚVeiki sem hrjáir hana. Kannski ég reyni bara heimatilbúna meðferð á hana, setji upp fréttasett í eldhúsinu og leiki fyrir hana fréttir á hverju kvöldi, leiði hana þannig smaám saman frá skjáveruleikanum og inn í raunveruleikann. Nenni samt ekki að fara að leika einhverja lögguþætti fyrir hana eins og Laddi í akkorði. Logi kveður. Góða nótt. Fréttir verða sagðar á sama tíma annað kvöld.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?