26.9.04

Börn vaxa hraðar en tré í Skagafirði

Kominn aftur í Skammakrókinn. Með gleraugu í farteskinu. Les norðrið með augum suðursins. Svosem ágætis ferð þannig. Reyndar engin uppáferð en varð margs vísari á Bölstofum bæjarins. Kom þó mest á óvart hve mikil trjámenning er syðra. Allt vaðandi í haustlitum laufum. Reykjavík er laufborg. Það sér ekki í húsin fyrir görðum. Hér í Roklandinu þrífast engir stofnar. Man þegar mamma píndi mig fram í fjörð til að stunda þar skógrækt á ónefndum bæ. Sjö ára gamall látinn pína 25 cm langar hríslur í jörð. Nú, þrjátíu og einu ári síðar, eru þær 50 cm háar. Jafnvel börn vaxa hraðar en tré í Skagafirði. Trjárækt er ekkert fyrir okkur. Við erum meira fyrir hrossaræktina. Enda eina ræktin sem hægt er að stunda drukkinn.

22.9.04

Hróp

Ég sé bestu menn minnar kynslóðar leidda eins og hökufeita heimilisketti meðfram frostköldum kistum, inn í myrkviði kexsins og pexsins. Hlekkjaðir á fótum og höndum með æpandi feitum börnum æmta þeir hvorki né skræmta heldur afhenda bljúgir vinnudaginn við kassann og hlaða síðan jeppann fullan af ónauðsynjum. Stynja svo nett undir stýri áður en umsjónarkonur þeirra beina þeim með naglalökkuðum vísifingri (beittasta vopni nútímans!) út af stæðinu og inn á það næsta. Fullnuma í feminískum ballarbrögðum fóðra þær sífitnandi nagdýrið sem býr innra með hverjum karlmanni - naggrísinn sem nagar helvítis samviskuna!

Ég sé bestu menn minnar kynslóðar hverfa inn í loðfóðruð leggöng, inn í flísalagt nöldur, inn í varalituð anddyri, inn um talandi glerdyr. Undir lágværu muldri létttónlistar, sem fellur yfir þá úr svörtum hátölurum eins og ilmvatnsskúr, ráfa þeir meðfram hundrað hilluröðum fullum af mismunandi útfærslum á sama helvítis blendernum, á svipinn eins og uppstoppaðir refir: Augun glansandi af heiladauða og eitt-sinn-tannbeitt brosið fyrir löngu frosið, en samt það eina sem minnir á gamalt eðli; veiðieðli karlmannsins. Þeir sporta því líkt og fálkaorðu frá afa gamla en hið innra hefur eðlið skipt um gogg. Karlmaðurinn er hættur að drepa. Hann er ekki lengur ránfugl heldur vaðfugl. Svífur ekki lengur yfir sveitum heldur hangir niðri í fjöru, á spóaleggjum með uppþembdan kassa og goggar sínum goggi í tölvuskjá; í von um eitthvað bitastætt sem hafsjór fróðleiks kastar á land. Honum dettur ekkert í hug lengur. Pikkar það bara upp af netinu, dregur það upp úr sandinum með sínum langa goggi og áframsendir svo kollegunum.

Mínus einn

Viddi bróðir bauð mér í mat í gærkvöldi. Nýju skutlan heitir Katla Mjöll. Hún á eftir að gjósa í vor. Spái ég. Heimilið er tveggja vikna gamalt í sjötugu húsi. Ég breyttist í Völu Matt á meðan Katla útskýrði fyrir mér hvað ætti að koma hvar og hvernig hvaða herbergi yrði á meðan Viddi kokkaði indverskan kjúkling. Katlan er dísæt eins og hinar allar og verður örugglega fljót að finna nýjan mann þegar Viddi yfrgefur hana þegar krakkinn er orðinn hálfs árs. Hjó eftir því að á heimilinu var aðeins tvær bækur að finna. Tvær trendí matreiðslubækur. Í naumhillu í stofunni voru aðeins myndbönd og diskar. Svona er nýja lífið. Viddi hélt áfram að tala um KVIKMYNDINA. Vill að ég skrifi handritið. Það er skrýtið, vegna þess að ég hef aldrei skrifað neitt nema blogg. Samt kannski ekki skrýtið þar sem hann hefur aldrei skrifað neitt nema nafnið sitt. Katla kann að þegja og þagði heilu hálftímana undir þessu múvíbulli í bróður mínum. Hún leggur það á sig fyrir "frægðina". Fyrir þennan mýflugufót af frægð sem í því felst að vera sambýliskona mannsins sem talar inn á teiknimyndir fyrir Bangsímon. Ég var hálf dapur þegar ég gekk "heim" á Flókagötuna. Fór til augnlæknisins. Mínus einn. Ég er mínus einn. Mínus bróðir minn.

21.9.04

Hadegisverdur med Dr. Hook

Enn i baenum. Nu a nafnlausu kaffihusi i "undrað í leynum". (Thetta er tilvitnun i Olmar Pikur sem eg hefði alls ekki att að minnast a thvi nu ryðst hann enn inn a siðuna með allt sitt rembingsfulla andleysi. Liebe Freunde! Bitte nicht beobachten. Hann er vist med bok thessi jolin. Thannig ad astand hans a bara eftir ad versna.) Hitti Vidda brodur i hadeginu. Tok mig med ser i mat, átum einhvern skripafisk a stad sem heitir Fox eda Vox og er a gömlu Hotel Esju. Maturinn svo flottur ad madur veigradi ser vid thvi ad snerta hann. Og eintom fóstur a öllum borðum, fóstur í jakkafötum að ræða útrasina/innrásina í Pólland. Baugur fer fyrst og svo kemur KB banki i kjlölfarid... Bö bö bö. Viddi talaði bara um KVIKMYNDINA, sem hann vill nú að heiti Dr. Hook eða tha Sheepriverhook. Sat undir þessu bulli af blóðskyldurækninni einni saman. Myndin á að fjalla um Krokinn, ja. Thad er fullt af folki a ferli her i götunni, gengur til og frá, allir a svipinn einsog lif theirra skipti mali. Vitleysingar. Borgarvitleysingar. Madur tharf heilan fjord fyrir sig til ad hugsa skyrt. Borgir ala vitleysinga. Se i gegnum thetta allt. Samt ekki enn farinn til augnlæknisins. Med gleraugum mun eg sjalfsagt sja alla leid inn i netheima. Tha mun eg sja hvern thann sem situr og les mitt auma blogg. Gogg gogg.

19.9.04

Die Stadt

Sunnudagur í syndaborginni. Ævintýrin gerast enn. Sit hér við lyklaborð í steingleymdu skeljasandshúsi á Flókagötu. Það bara helvítis atvikaðist. Elli brá sér á netið og sneri fúll til baka. Sannleikurinn er eins og himinn yfir okkur. Maður býst aldrei við því að neinn líti til lofts. Einhverveginn í helvítinu hafði hann rekist inn í Rokland og séð gærdagsfærsluna um sig og sína og varð svona líka hrottalega reiður. Veit svosem ekki hvað það var sem fór svona í bakið á honum, en mínútum síðar stóð ég á götunni, undir ljósastaur í trúiðþvíeðaekki Teigahverfi. Náði sambandi við Samma, og mætti honum á Kringlukránni. (Hann fer aldrei neðar í bæinn.) Tókum einn yfirmáta plebbalegan góðborgara þar. Stólarnir höfðu tapað leiknum og þetta var eins og að snæða með þunglyndum frænda í geðlægð. Slapp loks og notaði fætur niður í bæ, tékkaði mig inn á þetta geðfatlaða gistiheimili við Flókagötu (sem S mælti með) og leit síðan við í knæpuhverfinu sem málleysingjarnir kalla 101. Hitti Balda Bíld á Næsta bar. Hef ekki séð hann í fimm ár. Hann er enn jafn hundleiðinlegur og hann var en skárri en allir rembingaslistamennirnir þarna. Baldarinn leiddi mig loks upp á Ölstofu þar sem R-víkur-reyturnar af Berlínargenginu sátu við krús. Reynir var í mestu stuðinu og tuðaði látlaust um Baugsmálið. Hverjum er ekki sama um átök yfirplebbans og þeirra nýríku? Fönix var þarna líka, gaf mér eld en brosti eins og við hefðum aldrei vaknað saman. Þvílík örtröð þarna þegar leið á nótt. Allir heilagir hestamenn helltu sér yfir mig og allt í einu skveraði sér inn um bölsins gætt engin önnur en Helga Sjöfn, kynbomban úr FNV. Heilsaði kurteislega, ég heilsaði til baka eins skýrt og ég gat þannig að henni skildist að ég væri kominn inn á geðdeild og það væri henni helvítinu henni að kenna. Helvítis merin. Það er reyndar henni að kenna hvert ég er kominn í lífinu. Kom þarna líka auga á Ólmar Píkur (svo nefndur af sjálfum sér. Nah, gut, ja.) Tromparinn stóð við barinn og kinkaði kolli án áfláts eins og honum væri borgað fyrir það. Hann var þarna með frú sinni, Slökum Tilla (þau litu út eins og hin óhjákvæmilegu hjónabandsvandræði sem í nöfnum þeirra felast). Erfitt að þykjast vera erlendis þegar maður er kominn í bæinn. Sem betur fór þekkti kappinn mig ekki þegar til kom. Annars væri ég ekki hér og nú. Samt gott að vita af einum reiðari en ég þarna úti. Maður er þá ekki eins mikið Felli. Endaði í partýi með Berlínarbykkjunum, heima hjá litlum loðnum ljóðara á Grettisgötu. Fönixinn lét sig hverfa. Ég skreið undir morguninn og inn á Flókagötuna eins og ég hefði búið hér í 17 ár. Verð líklega fram á þriðjudag. Augnlæknir á morgun. Kannski getur hann læknað þessar sýnir. Kannski getur hann fjarlægt þessa jólasveina úr augunum á mér. Æ æ, nú kemur gistigefarinn. Guð blessi hann og alla hans fitu.

Sunnanpóstur

Sunnapóstur. Um helvítis nótt. Stelst í opna tölvu hér í Klinkbankanum. Einhvern forsögulegan PC-garm inni á ónefndri vinnustofu. OK. Segi nú frá. Staðreynd málsins er sú að Elli leyfði mér að gista á vinnustofunni sinni hér í K&B, á einum gargandi fúlum dívangarmi sem ekki ófrægari maður en Hr. Prump á víst að hafa sofið á. Ég gef skít fyrir það. Og ég gef skít fyrir helvítis hljómsveit hans sem er að æra mig til helvítis. Nú klukkan 06.02 eru þeir enn að. Náði tveimur tímum af langþráðum lúr eftir heiftarlegt knæpurölt í stórborginni (Næsti, Grand, Ölstofa, Ölstofa, Grand, Sirkus) þegar fokk&fólin mættu og byrjuðu að reyna að ræsa þessa druslu sína. Hljóðkútslaus Trabant tryllti mig fram úr rúmi. Reyndi að flýja niður einhverja rangala og upp aðra en allt fyrir ekkert. Trabantinn spólar um allt hús. Fann þó að lokum hálfan Marlboro-pakka og opna tölvu. Sit hér og rutla reyk yfir bjórklístrað lyklaborð með fokk í eyrum. Legg ekki í að fara út af þí að Elli er með lykilinn og kann ekki við að vekja hann og Lilju. Nú heyrist í skrækjandi kvenfólki uppi. Merkilegt. Það skiptir engu máli hvað menn eru lélegir tónlistarmenn, alltaf eru til grúppíur. Melluþráin hefur engan tónlistarsmekk. Æ æ. Búinn að vera 1.5 daga í Rækjuvíkinni og strax að fríka út.

18.9.04

Staðan

Staðan núna sú að Elli sá aumur á mér. Bauð mér að gista eftir frásögn mína af nótt með Trabant. Ég er því laus úr Klinkbankanum. Núna hjá Ella og Lilju á Hraunteignum. Reyklaust heimili. Elli þurfti að skreppa. Frekar vandræðaleg stund hjá okkur Lilju þannig að ég spurði hvort ég kæmist ekki á netið, hvar ég er nú. Liljan er frammi í eldhúsi að sýsla (undirbúa kvöldverð?) en ég hér inni í Arbeitzimmer ásamt bókakosti heimilisins. Mest einhverjar formdýrkandi listaverkabækur, Beuys og co. Furðulegt að Lilja sé á kafi í þessu. Alltof sexí fyrir þetta rugl. Verður örugglega komin út í hótelrekstur innan tíu ára. Vona bara að Elli fari ekki að sýna mér ljóðskúlptúrana sína. Hef sloppið hingað til. Heyri að hann er að koma. kveð í bili.

16.9.04

Rækjuvíkin framundan

Í fréttum fokking helst að ykkar meinlægur neyðist til að arka suður á borgarbóg. Augna vegna. Setti óvart á mig mömmugleraugun í gær. Kemur í ljós að ég þarf gleraugu. Gat ekki lesið nema korter í einu lengur. Er að breytast í gamlan blindan bolabít. Ég þarf að fara suður til að öðlast nýja sýn á lífið. Ekki enn ljóst hver ferðamátinn verður en Sammi er búinn að bjóða mér far með Stólarútunni. Það mun vera leikur á laugardaginn suður á Boltanesjum. Mér líst mátulega illa á það. Ekki heldur ljóst með dvalarstað í höfuðskekkjunni en tel líklegast að ég muni tjalda í Klink og Bank. Roklendingur mun því ekki eiga blogggengt næstu daga og þið heyrið frá mér að sunnanferð lokinni. Gef þá skýrslu um Rækjuvíkurnætur. Kæru Frónsmenn og Króks, takið ker þangað til.

15.9.04

15. september

Tíminn er töframaður sem getur látið stjórnmálamenn hverfa í einu púffi. Eins og hvíta kanínu ofan í svartan hatt.

Davíð hættir sem forsi í dag. Sami fílingur og ef norðanáttin væri lögð niður með einu pennastriki. Þessi vetur verður sumar.

Kauði ku sitja áfram sem formaður Sjálfstæðisfokksins en samt...

15. september er okkar 11. september.

Gleðilega hátíð.

12.9.04

Dick í rass

Fékk þetta frá Höska vini mínum í Berlín. Deili með ykkur. Sehr gut.

Bush fór inn í Bagdad
með Blair í ól.
Yfir fljótið Efrat.
Rokk og ról!

Dabba og Dóra í rassgat
með Dick hann tók
og sagði: Saddam is bad.
Sorrý, djók!

(Dick = Dick Cheney)

11.9.04

11. september

Tveggja turna dagurinn er í dag. Tveggja stafa dagurinn er í dag. (Horfið á þessa frábæru tölu: ellefu: helvítis fegurð í þessu: eins og tveir skýjakljúfar. Og níu stafir í s e p t e m b e r. Alkæda snillingar.) Þrjú ár síðan. Tvíburarnir hans Bush féllu með bramli. Tvær tennur brotnuðu. Og ekki enn búið að smíða nýjar upp í skoffínið. Framtennurnar brotnar. Ameríka brosir ekki lengur. Bítur bara frá sér. Eða reynir. Reynir að bíta tannlausu biti. Tannlaus Tom Cruise. Tannlaus Tóm Krús. Ö. Ö. Heill sé þér bróðir bin Laden. Ich bin Laden. Ja. Látið færa mig á sýslumannsskrifstofuna í böndum. Komiði bara. Ég bíð.

9.9.04

HP & HP

Kom í ljós í dag að Sammi veit ekki að Hallgrímur Pétursson var Skagfirðingur. Þá var hann nýbúinn að segja mér hvað einhver Sammi Hippia er með í mánaðartekjur. Verð stundum alsturlaður á þessu helvítislífi hérna. En get samt ekki flutt suður. Endurtek ekki meistarans mistök: Lykillinn að ógæfu Passíugríms var sá að hann kom aldrei aftur norður. Lét holdtaka sig af einhverri Tyrkja-hóru og kveða sig niður á Suðunes. Kvaldist á Hvalsnesi í útsinningsnárasorta hálfa ævina. Síðan í saurugum Saurbæ. Hefði betur komið norður en láta útnesingana stela sér og minningu sinni. Hallgrímskikirkja ætti að vera á Hólum en ekki suður á rassholti í Rækjuvík.

Nachbemerkung: HP okkar tíma gerði í raun sömu mistök og gamli HP. Flutti suður í suðið og varð smám saman þögninni að bráð.

5.9.04

Krúttin eru komin

Krúttin eru komin. Malla og Stefgjöldin eru mætt í bæinn. Álkast um göturnar eins og háaldraðar kryppukerlingar, með pappírsklemmur í augabrúninni og sigurrósir í hárinu. Sitja prjónandi úti í horni á KK og halda að við það breytist Krókur í Sirkus. Sötra unplugged te (ekki hitað í rafmagnskatli) og hvíslast á, hver sé tannlæknirinn hennar Garíbellu, hvað Björk borði í morgunmat og hvaða Trabant sé best að totta. Malla múmínálfur og Stebbi Dúllu. Halda að þau séu MENNINGARLEG innan um sveitalubbana þegar eina menning þeirra eru handprjónaðar ljóðabækur og sjálfdauft spiladósapopp. Hassið svæfði mína kynslóð. Sigur rós þessa.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?