28.7.04

Halló Viddi

Viðar bróðir minn sendi okkur mömmu tvær spólur í pósti í gær. Nýjasta afurð Bangsímons-fabrikkunnar og eitthvað annað vídeógeð. Viddi hefur ekki komið norður í tvö ár. Alltaf svo mikið að gera í bissýborginni. Að keyra niður Laugaveginn með gemsann við eyrað og segja hæ út um glugga og blikka dömur á næsta horni og snæða myndlistarverk af ferningslaga diski í hádeginu, hádeginu. Grey kallinn. Það er fallegt og hugulsamt af honum að senda mömmu gömlu tvær barnaspólur. Við getum áreiðanlega lesið líðan hans úr því hvernig hann talar fyrir Bangsímon að þessu sinni. Bara verst að við eigum ekki myndbandstæki. Viddi, halló! Hvernig hefurðu það? Ertu búinn að skilja við Ölmu Ljóð? Hvað heitir sú nýja? Hringdu nú í okkur. Mamma er í símaskránni. Hún heitir Halldóra Gísladóttir.

25.7.04

Mamma þarf kynlíf

Snilldar sólaralag í kvöld. Eins og Mahler hefði samið það. Fyrir hljómsveit, fjörð og tvær eyjar (bassa og sópran). Ég sat úti á tröppum og reykti nokkrar um leið og ég hlýddi á snilldina með augunum. Rambaði svo inn og rak orð í móður þar sem hún sat yfir sjónskerðinum. Það var ekki nokkur leið að fá hana til að rífa sig frá löggubullinu og rölta fram í eldhús eftir sálrænni upplyftingu. Nú, þegar þetta er skrifað, er hún búin að sitja samfellt yfir skerðinum síðan klukkan hálf sjö á föstudagskvöld. Líklega er kynlíf það eina sem gæti bjargað henni. Er alvarlega að hugsa um að setja auglýsingu inn á einkamál.is. "Roskin kona á Norðurlandi þungt haldin af sjónvarpssýki óskar eftir kynóðum manni á svipuðu reki."

24.7.04

Laugarferð

Bara orðinn nokkuð ánægður með krakkana mína. Litli Kópur er reyndar samur við sig en Aron og Hilmir vita nú loksins um hvað kvæðið "Óhræsið" fjallar og á hvaða bæ í Skagafirði Jónas Hallgrímsson dvaldi sem drengur (Goðdölum, fávitar). Þá vann Hákon Tjörvi það mikla afrek að hnoða saman vísu í vikunni. Hún var að vísu rangstuðluð hjá honum en ég sleppti honum með það. Það gengur ekki eins vel með stelpurnar. Þær eru mér lokaður þjóðflokkur sem er buddutrúar og tignar guðinn Ómægod. Tilvonandi FNVaffarar. Samt hef ég nú ákveðið að gera vel við hópinn og er búinn að panta rútukálf hjá Hödda. Hann mun skutla okkur út í Grettislaug næsta fimmtudag. Hver veit nema maður taki snarpan Gretti.

15.7.04

Auglýsingar eru unglingabólur í andliti dagsins

Einmitt. Auglýsingar eru unglingabólur í andliti dagsins.

14.7.04

Bloggsugur

Blogg er blóð
sem bræður teyga.
Hér þiggur þjóð
hvað þjóð má eiga.

12.7.04

Licht bin ich

Sendur út í bakarí í morgun. Mamma sendir mig reyndar aldrei neitt en Skulda systir mætti óvart í það sem nýpakkið kallar "bröns" og heimtaði "horn og snúða". Hljómaði eins og "horn og hala". Fann fyrir hjartslætti fram eftir Aðalgötunni. Ekki vegna þess að ég mætti Lonely Mountain á leiðinni, sem ég reyndar gerði, heldur annars vegna: Der Sammer sammaði mig á dögunum fyrir pistilinn um "Bomsu-Birtu". Beygur bloggarans gerði vart við sig þegar ég steig inn í Die Backerei og sá að bjútíljónið Birta Stefáns var að afgreiða. (Best að ljúka því af strax: Mun ekki kalla þig Bomsu-Birtu aftur, elsku dúllan mín. Fyrirgefðu mér bloggnum manni.) Lét mig samt hafa það að biðja hana um horn og hala. "Hvað meinarðu?" Æ, þarna var ég kominn aftur í bomsuna, en leiðrétti mig snarlega - það var eins og ég hefði beyglað bros hennar. Að skilnaði og í sárabætur gaf ég henni sneið af köku meistarans:

"Licht bin ich: ach dass ich Nacht wäre! Aber diess ist meine Einsamkeit, dass ich von Licht umgürtet bin"

Neyddist ég reyndar til að þýða þetta fyrir hana á flíslensku:

"Ég heita Birta. Ég hefði frekar átt að heita Nótt. En svona er þetta bara. Ég verð víst að sætta mig við að vera birta í bomsu."

Guten Sonntag, meine Seelen. Montag verður schön. Unglingaarbeit macht frei.

Draumur

Dreymdi í nótt að Stebbi Dillu hefði keyrt yfir mig. Það kemur líklega að því fyrr eða síðar. Finnst samt að hann ætti að fá sér flottari bíl fyrst.

9.7.04

Kelinn

Lenti í hangsi á Hótelinu í kvöld. Keli bauð upp á pólskan bjór. Tveir gamlir sérfræðingar að sunnan voru þarna, komnir til að heilsa upp á karlinn. Talið barst að skeifulegri kellu á Króknum. "Það er eins og hún hafi verið þvinguð til munnmaka," kvað Kelinn.

6.7.04

Siglufjörður.com

Það fréttist af Manna Volgu á balli á Sigló um helgina. Með kvenmann upp á arminn! Einhverja eiturslöngu að sunnan með sjö meðferða CV. Þetta eru svona alíka góðar fréttir og ef Lalli Johns væri byrjaður í öldungadeildinni eða Davíð Oddsson kominn til sálfræðings. Hefur áhrif á líf okkar allra. Muss man sagen.

3.7.04

Kyngið eða spýtið

Rokk og ról er búið. Rok og ró er málið.

2.7.04

BBC-Indverjar

Krakkarnir eru ofurseldir ruslmenningunni. Ég reyni að skapa umræður í bílnum eða kaffitímunum en þau detta strax í það að fara að ræða enska boltann, enskar hljómsveitir eða enskar slúðurfréttir. Það er bara ein menning sem ræður ríkjum í heiminum í dag og hún er enskumælandi. Líka hér uppi á heimsins kjötkróki. Síðan hvenær vorum við meðlimir í breska heimsveldinu? Afhverju látum við þá kúga okkur eins og hverja aðra BBC-Indverja með öllu sínu ruglukollarokki, boltabulli og galdrabókmenntum, lögguþáttaröðum á lengd við Kínamúrinn og ríðingafréttum af ljótu fólki? Erum við ein af Bretlandseyjum? Vorum við tattúveruð á bossann á Beckham?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?