22.6.04

Rok og ró

Helvítis gjólublástur í dag. Var með krakkana uppi í kirkjugarði. Leyfði þeim að fara aðeins fyrr og gekk síðan út með Nöfunum, undarlega rólegur í rokinu, með "Kyrie eleison" á heilanum. Rok og ró er málið.

20.6.04

Maur

Móðir tók þennan sunnudaginn hjá Skuldu systur og mér var rambað upp. Datt í mig að hlusta á gamlan rykfallinn Requiem-disk sem ég og gerði. Sat í klukkutíma í stofunni með Mozart á hæsta og góndi á svartan skjá nefndan Sharp. Aldrei farið í gegnum allt stykkið þótt ég hafi átt diskinn í tíu ár og það var helvítis upplifun. Tónlistin gáraði húðina á mér eins og vindur vatn. Ég kom undan þessu eins og maur; skreið undan þessu eins og rauðleitur maur undan risafuru, marinn á sál. Gat ekki séð annað en að sjónvarpið væri ónýtt eftir þetta.

Mér leið eins og ég ætti skilið að lifa allavega eitt ár enn.

17.6.04

Móðuþægindin

Of mikil velsæld skapar vesæld.

11.6.04

Kvöldflapur

Í kvöld var fjörðurinn fögur veröld. Ég gekk niður á Sand og tók undir í sólarlagi. Sjórinn var sléttur sem svell og bráðið gull kvöldsólarinnar flæddi út yfir það, allt heim að fótum mér. Ég gapti góða stund þar til allur vindur var úr mér líka. Stóð bara þarna og naut þess að vera Skagfirðingur. Síðan kom það sem karlarnir kalla "kvöldflapur"; örlítil vindgola sem getur gert trillugárur á víðan fjörð en gerir annars engan skunda. Hún myndast vegna fuglafjörs: Mávarnir verða svo ölvaðir af fegurð að þeir fara allir á loft í einu. Vængjablak þeirra framkallar þetta sem karlarnir kalla kvöldflapur. Schön.

Siglfirðingar sjálfsagt ekki jafn heppnir. Manni Volgu er búinn að vera þar síðan í vor. Aldrei logn í kringum þann mann.

7.6.04

Kynlíf er Hitler

Maður þarf að passa sig á kvenfólki. Heimskasti hlutinn af mér heilsar þeim alltaf með "sieg heil" kveðju. Kynlíf er Hitler. Það byrjar alltaf með innrás og endar í dimmum bönker.

4.6.04

Borðið þetta

Gengi bréfa Stephans G. lækkar aldrei.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?