6.5.04

Þjóðfélag er flugfélag sem flýgur í vitlausa átt

Við sitjum föst í þessu helvítis þjóðfélagi bundin í öryggisbelti. Neyðumst til að taka þátt. Pínd til að vera með. Og þjóðfélagið stefnir á ógnarhraða inn í framtíðina. Við megum ekki einu sinni standa upp og mótmæla. Megum bara ýta á takka til að biðja um teppi eða bjór. Eins og kellingar á leið til Kanarí. Og tveimur mínútum eftir að maður er kominn í loftið dettur einhver helvítis skjár fyrir augun á manni og maður er píndur til að horfa á ameríska brandaradrullu í þrjá helvítis klukkutíma. Hver bað um það? Afhverju er ekki þriggja tíma langt viðtal við Peter Handke? Afhverju er ekki lesið upp úr Grettissögu? Afhverju er ekki bein útsending úr svefnherberginu í Hvíta húsinu? Bush in the bush.

Á hljóðrásunum er svo spilaður sykraður eyrnamergur eftir Time, Warner og Sony í bland við óperugaulið úr Rossini og Verdi. Menn vilja ekki kafa of djúpt þegar þeir eru komnir í þrjátíu þúsund feta hæð. Já. Við þykjumst fljúga hátt þegar við erum í rauninni að skrapa botninn. Sargið sker í eyru. Við köllum það tónlist. Metallica, U2, Eminem. Við erum fyrir löngu búin að gefast upp og höfum leyft náfölum nautnahausum að gera hljóðrásina við líf okkar, tónlist sem ber þess greinilega merki að vera tekin upp í gluggalausum dýflissum. Á meðan fylla málarar nútímans, amerískir tæknimenn, augu okkar af glerbrotum og eldblossum. Út um gluggann blasir við fegurð heimsins en við stöffum haus okkar og maga með helvítis flugvélamat: Ældum eggjum úr örbylgjuofni. Flugfreyjan kemur og býður upp á bros í eftirrétt. Þig langar til að klifra með henni út á vænginn og hoppa á næsta ský til að húkka þér far með annarskonar þjóðfélagi. En það er ekki hægt. Það er ekki til. Maður á bara kost á einu þjóðfélagi: Þessu sem maður situr fastur í. Þar sem allir eru að hlusta á REM og horfa á LOTR.

Helvítis.

Þjóðfélag er flugfélag sem flýgur í vitlausa átt. Ég ligg endilangur í farangursrýminu, innan um pjöggur og pinkla, helkaldur og kvalinn, nartandi í hrímmola sem hrundi ofan úr loftinu þegar vélin tók síðustu dýfu. Fokk.
- BHS.

4.5.04

BHSays

Að láta sér bara líða vel er að bíða hel.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?