25.7.05

Hlustið á þetta eða deyjið.

16.1.05

HALLDÓRA GÍSLADÓTTIR (1941 - 2005)

Mamma var jörðuð í gær. Hún varð ekki nema 63 ára gömul. Var svikin um tuttugu ár. Krufning sagði kransæðastífla. Hún reykti 365 pakka á ári í 47 ár. CV-ið hennar taldi því sautján þúsund pakka af rauðum Marlboro. Það eru fleiri sígarettur en Íslendingar. Samt barst ekkert samúðarskeyti frá Philip Morris USA. Sjálfsagt erfiður dagur hjá þeim í Richmond, Virginia. Þeir missa víst 350.000 kúnna á dag. Í gröfina. Samt held ég að Hr. Morris hafi ekki staðið einn að verki. Það var Sjónvarpið sem drap mömmu. Úr leiðindum. Þegar ég var lítill horfði hún reyndar lítið á sjónvarp en síðan gerðist eitthvað. Kannski var það liturinn: Frá því við fengum litasjónvarpið í ágúst ?81 horfði mamma á það. Öll kvöld og allar helgar ársins. Mamma sá alla helvítis sjónvarpsdagskrána sem send var út á árunum 1981 til 2005. Í tuttugu og fjögur ár sá hún alla fréttatíma, alla framhaldsþætti, allar sápuseríur, allar beinar útsendingar frá stórmótum, allar Stundirnar okkar, alla auglýsingatíma og hvern og einn einasta lottó-útdrátt. Hún var einu sinni með fjórar tölur réttar, vann áttatíu þúsund kall og keypti sér stærra sjónvarp. Sharp. Very Sharp. Mamma fylgdist með þremur kynslóðum þula finna sér mann og hverfa af skjánum. Mamma sá allar föstudags- og laugardagskvikmyndir ríkisins sem sýndar voru á árunum 1981-2005. Samtals 6.370 myndir. Þar á meðal voru 46 íslenskar. Það er miklu meira en banvænn skammtur. Það getur engin mannleg sál tekið við slíku magni af rusli. Ég mun höfða mál á hendur RÚV eftir helgi.

Efnishyggjan hefur kennt okkur að hugsa um líkamann, kennt okkur að ruslfæði sé honum skaðlegt. Andleg óhollusta er samt miklu hættulegri. Það lifir enginn stundinni lengur eftir að sálin deyr. Það voru ekki þessar þrjú hundruð fjörutíu og þrjú þúsund sígarettur sem mynduðu stífluna í kransæðum mömmu heldur þessir þrjátíu þúsund klukkutímar af illa textaðri heimsku. Mamma var sjónvarpssjúklingur. Andlegur heróínisti. Enginn gat hjálpað henni. Ríkið dældi í hana fimm tímum af froðu á dag. Hollywood-formúlur að kvöldi og Formúlan að morgni. (Mamma hélt með Schumacher. Heilsunnar vegna.) Í stað þess að fara til messu eins og ætlast er til af konum á hennar aldri sat hún inni í stofu og lét kappakstursbíla suða umhverfis höfuðið á sér með tilheyrandi hávaða. Það var engin leið að koma orði í gegnum þann flugnasveim. Að akstrinum loknum horfði hún svo á Gísla Martein endurtekinn frá kvöldinu áður og endurtók óafvitandi allar athugasemdir sínar við efni þáttarins. ?Rosknir karlmenn eiga ekkert að vera með skegg.? Og svo var það Oprah. Síðustu tvö árin var hún áskrifandi að Oprah. Jólagjöfin frá Skuldu systur. Sem þýddi það að mamma heimsótti hana aldrei eftir það. Hún komst aldrei. Var húsföst allar helgar. Það var búið að formatta mömmu. Hugur hennar var orðinn að tölvu. Hún hlaut að krassa fyrr eða síðar. Síðasta kvöldið horfði hún á þrjár myndir í röð. Snow Falling on Cedars, Bait og Father?s Day. Svo hétu banabitarnir þrír. Í stað þess að leggjast inn í rúm með Guðrúnu frá Lundi (sem var nágranni hennar í tuttugu ár) eða tölta út að þrettándabrennu til að syngja sig heita í framan með vinnufélögunum sat hún eins og hóstandi reykvél yfir þessum fréttamyndum um andlegt ástand á vesturvígstöðvunum. Þrjár slæmar myndir í röð voru nóg til að gera endanlega út af við hana. Það blæddi úr augum hennar og froða vall út um eyrun. Billy Crystal og Robin Williams tóku höndum saman í síðustu mynd kvöldsins og murkuðu úr henni lífið með aulagangi. Megi þeir drukkna í sundlaugum sínum. Mamma. Þú áttir betra skilið.

Þú áttir betra skilið en að þræla þér út fyrir Fiskiðjuna, RÚV og Philip Morris.

Mamma var engin hetja. Það má segja að hún hafi verið hóra. Launahóra. Eins og helmingur landsmanna. En hún var ekki sjálfviljug hóra. Hún var seld mansali eins og þinghænurnar fyrir sunnan segja. Nútíminn reif hana upp úr íslensku landslagi, upp af ísköldu útskaganesi, frá kvæðum, sögum og þjóðlögum, og rak hana niður amerískan latadreng, gaf henni rettu og eld og fyllti augu hennar og eyru af gróðafroðu; martröðum framleiddum í draumaverksmiðjunni. Mamma bjó ekki á Íslandi. Hún bjó í Hollywood. Í litlu kofaskrifli sem hékk utan í hlíðinni þar sem stafirnir frægu standa. Ekki langt frá D-inu; þar dró hún fram lífið á áhorfsbótunum sínum, þar hjarði hún yfir Bráðavaktinni í gagnsæjum spýtnakofanum og blés Marlbororeyk út um glerlausan glugga. Hún svaraði ekki bréfunum frá mér, jafnvel ekki þeim sem ég náði að smygla upp á færibandið: Innan um sjónvarpsþætti, sígarettur og þorskflök rakst hún á eitt og eitt sendibréf með skjálfhentri skrift, frá vonlausum syni undir þýskri súð, og pillaði það jafnharðan ólesið út af bandinu.

?Hvað segirðu, ertu ekki með neitt sjónvarp, vinur minn?? hóstaði hún í símann hver jól.

Mamma var fórnarlamb tímans. Fórnarlamb Stofustríðsins sem geisað hefur allt frá múgvæðingu lífsgæðanna. Þið eruð öll óafvitandi fótgönguliðar í þeirri ósýnilegu styrjöld, þeirri smáborgarastyrjöld; fótgönguliðar bandamanna sem reyna hvað þeir geta að halda óvininum í skefjum. Þið eruð hermenn heimskunnar. Þrælar þeirrar tækni sem átti að þjóna ykkur. Eins og nýríkir nirflar hafið þið grafið ykkur niður í bólstraða skotgröfina, fullgræjaða stofuna; ykkar litla vestræna heim með bílskúr, garði og hekki í kring og haldið að hann sé óvinnandi vígi. Klyfjaðir vopnum hóglífisins verjist þið Vestræningjunum þremur; hinum ímynduðu óvinum allsnægtanna: Myrkrinu, Þögninni og Einverunni. Vopnaðir tölvum, músum, íhlöðum, farsímum, hleðslutækjum, prenturum, skönnurum, brennurum, myndavélum, kortalesurum, lófatölvum, myndbandstækjum, geislaspilurum, upptökuvélum, örbylgjuofnum, brauðristum, blöndurum, rjómaþeyturum, ryksugum, þvottavélum, þurrkurum, gasgrillum og rúllubaggavélum rogist þið fram á vígvöllinn gegn þessum aldurhnignu óvinum sem engum vopnum beita nema sjálfum sér: Þeirri ógn sem þið óttist þó mest.

Stofustríðið, Der Hauskrieg, er háð á hverju kvöldi, hverri nóttu, sérhvern dag. Í hverjum kveikjara, hverri innstungu, logar óttinn um að rafmagnið fari af og lífið verði aftur eins og það var; að fortíðin komi skríðandi upp eftir baki ykkar eins og ísköld og pestarhóstandi rotta; að ljósið slokkni yfir Vesturlöndum og verði í staðinn kveikt í austri, suðaustri eða suðri. Og þið haldið að herdeildum ykkar miði fram við hvern nýjan ónytjahlut sem framleiddur er en það er ekki svo. Því hraðar sem þið fjarlægist upphafið, því hraðar nálgast það ykkur úr gagnstæðri átt. Stofustríðið er ekki stríð sem hægt er að vinna. Sérhver landvinningur þess er andvinningur. Krafan um landrými gengur á andrýmið. Sigur efnisins er ósigur andans. Fyrir hverja kökusneið af þægindum sem þið húrrið ofan í ykkur neyðist þið til að klípa bita af sálinni. Að lokum er hún uppétin og þið deyið í svefni með Robin Williams og Billy Crystal sitjandi sinn hvorum megin við rúmið: Tveir skælandi trúðar á trúnó: ?Ó, fyrirgefðu okkur, við hefðum aldrei átt að gera þessa mynd. Það var ekki okkur að kenna að hún varð svona léleg!?

Ja, genau. Of seint að segja það núna. Þegar þið eruð búnir að drepa móður mína.

Í morgun gekk ég út á Reykjaströnd, út í Fagranes, og sat þar í 70 mínútur og horfði á fjörðinn. Talaði við fjörðinn. Með mömmusorg í brjósti og nefið upp í vindinn. Eins og grátittlingur í gráveðri. Nú var mamma komin til himna en pabbi lá enn á hafsbotni. Ég hét því að nýta bilið þar á milli. Ég hét því að verða þeirra verður. Og geri það hér á ný. Í smástund hugleiddi ég meira að segja að setjast að úti í Drangey en sá sem var, að eyjuna skortir netsamband.

Það var vont í sjóinn og verra í lofti. Kalsabruni í kinnum. Ég reyndi að hata ekki heimalandið um of á leiðinni til baka og fékk óvænta hjálp við það: Roskin sænsk kona með blautt hár og kónganef tók mig upp í rauðan skutbíl. Hún var að koma úr Grettislaug og kunni hrafl í þýsku. Talaði eins og fyrrverandi kórstýra. Sagðist eiga barnabarn á Króknum.

Barnabarn á Króknum.

Þegar við komum inn í bæ var farið að hvessa all verulega. Skarðagolan stóð yfir húsþökin en var samt ekki nógu hvöss til að rífa með sér sjónvarpsloftnetin, þessa helvítis tossakrossa sem hafa gert hvert hús að heimskri kirkju þar sem skjáguðum eru færðar fórnir á hverju kvöldi í poppskálum og pepsiglösum.

Ég hef séð inn í stofur landsins og ég hef séð inn í sálir landans. Glansandi gólf úr niðurslípuðum skógi og sófar fullir af uppblásnum airbags. Kjötharðir ávextir í skálinni. En sálin lítil og hörð, eins og gallsteinn.

Í vellíðuninni er vanlíðanin falin.

Innifalin.

Of mikil velsæld skapar vesæld.

Ég hef séð inn í stofur allsnægtanna þar sem allt er til alls og ekkert er til neins. Þar sem rúsínur og möndlur bíða í röðum við hvern fingur og goslaust gos í glösum bíður munns. Og á miðju gólfi stendur sjónvarpstækið, drekkhlaðið af konfekti fyrir augun. En fyrir utan liggur Jónas á glugga. Liggur Jónas Hallgrímsson á glugga. Nákaldur og hrakinn og fer með vísu:

Liggur hér á loðnum skó
landsins horfni andi.
Ég uni mér best í roki og ró
og rýni lítt í neysluþjó.
Vesæll er tíðar vandi.

Ég hef séð inn í stofur hins auðvelda lífs. Hins auðvelda lífs í auðveldinu Ísland. Og ég hef séð hvar sálin hírist, á klakabundnum mel í feitri kjöltu. Með skolla-augum gónir hún utan úr myrkrinu. Á Proof of Life með Ryan og Crowe.

Mögnuð eru Móðuþægindin.

Guð mun blessa Góðuharðindin.

Nei.

Þú sem þetta lest. Þú ert fáviti.

Haltu samt kjafti og haltu áfram. Að lesa.

Eða hversu mörg helvítis hestöfl þarftu undir rassinn á þér, úr búð og niðrí banka, á meðan heilu þorpin í þriðja heiminum láta sér nægja einn asna? Íslenski jeppinn er á við tvö hundruð hesta. Ert þú asninn?

Stofustríðið er háð gegn Myrkrinu, Þögninni og Einverunni. Gegn hungruðum og hatri þeirra. Gegn þriðja heiminum. Gegn þeim sem vilja drepa okkur. Gegn Írak og Íran. Gegn Bagdad og bin Laden. Gegn Byron og Goethe. Gegn Brandi og Brandes. Gegn Jónasi og Megasi og öllum þessum helvítis skáldum sem ortu alltof mikið. Gegn Stephani G. (Ætlar mannfjandinn aldrei að sofna?) Gegn Rótunum og Sögunni. Gegn Hugsuninni og Spekinni. Gegn Tóminu og Tilgangsleysinu.

GEGN TÍMANUM.

Gegn þeim gamla góða óvini sem forðum réð ríkjum okkar. Við gerum allt sem við getum til að eyða Tímanum. Því hann vakir þarna enn, eins og veggur við sjóndeildarhringinn, fullur af tómleika og leiðindum. Við stöndum á ströndinni með fjarstýringar í hönd og skjótum hann niður jafnóðum.

Klasse.

Ég tilheyri tíma sem þolir ekki Tímann. Sem berst á móti honum allan daginn. Fólk er í endalausu tímahraki, of seint í tíma, að falla á tíma, hefur ekki tíma, vantar meiri tíma, en reynir þó umfram allt að drepa Tímann. Tíminn er hinn mikli óvinur. Dagar okkar eru helgaðir baráttunni gegn honum. Það erfiðasta sem nútímamaðurinn getur gert er að gera ekki neitt; að vera einn með sjálfum sér, að fara ekkert, gera ekkert, kveikja á engu allan daginn; sitja einn uppi í helvítis sumarbústað með slökkt á öllum veitum og hugsa. Það er það erfiðasta. Það þolir enginn. Þess vegna er þetta þjóðfélag eins og það er.

Hugsunarlaust.

Líf ykkar er helgað baráttunni fyrir hámarks þægindum. Ég hef þurft að berjast fyrir lágmarks óþægindum. Því fylgja hámarks óvinsældir.

Farið öll til Fjandans. Hann vinnur suður á Byggðastofnun. Er við frá níu fimmtán til fjögur. Nema á miðvikudögum milli tíu og tólf. Þá fer hann í horn- og hófsnyrtingu hjá Röggu í Tánni. Og í halaklippingu hjá Hadda klipp á eftir.

Ykkur er ekki viðbjargandi. Þið eruð þiggjendur, tyggjendur, neytendur, þreytendur. ?Ég er alæta á tónlist?. ?Stónsari í húð og hár?. ?Alltaf haldið upp á Clapton?. Þið fyllið hverja stund ykkar með rusli. Með augun á netinu, eyrun á útvarpinu, tunguna í áthvarfi og tittlinginn í endurmenntun er ykkur öllum borgið og lokið klukkan sex. Þá tekur helvítis fjölskyldan við ykkur og heldur ykkur gangandi í umvöndunarvélinni fram að seinni fréttum. Frúin veitir ykkur nábjargirnar í sófanum framan við Mellur á mölinni. Svo upp aftur daginn eftir. Sama sagan. Þið komist ekki á fætur nema að fá morgunskammtinn ykkar af rokki, léttrokki, þungarokki, pönkrokki, bárujárnsrokki, iðnaðarrokki, dauðarokki, popprokki, pungrokki og skallarokki: Skeggjaðir skuggabaldrar með rokkskalla og kýlivömb sitja niðurgrafnir í hljóðbyrgi sunnan heiða og kynna látin og oflátin gamalmenni sem kunnu að plokka gítar, kunnu að rífa hlustir með beittum nöglum, í ríkisvirtu og sníkjustyrktu yfirvarpi allra landsmanna. ?Skulum fá hér eitt gamalt og gott með Billy Bragg sem verður einmitt sjötugur á morgun?. Bla bla bla. Blo blo blo. Rokkland fyrir hádegi, Rokkland eftir hádegi og Rokkland allan daginn. Taglið tifar í hnakkanum og undirhakan blaktir með. Enginn þarf nokkru sinni að hlusta, bara láta hundrað þúsund trommuleikara lemja hlustir sínar með kjuðum. Ég hef séð margrómaða efnispilta setjast við trommusett og taka sér heimskuna í hönd. Berja húðir. Kálfar að berja kálfskinn. Nautheimskan er heimsútbreidd. Ekkert er hlægilegra en hljómsveitarmyndir: Fimm frækin fölmenni með sólgleraugu úti í hrauni og munninn greyptan í ég-er-svalur-svip. Þora ekki að opna hann af því þeir hafa ekkert að segja. Þenja svo fokkins hljóðfærin nógu hátt til að textinn heyrist ekki. Sem alltaf er hafður á ensku af því það er auðveldara að semja ljóð um ekkert á máli sem maður kann ekki.

Rokk og ról er dautt og grafið. Rok og ró er rétt nýhafið.

Ég er Roklendingur í Rokklandi. Þar sem rokkið æðir um göturnar dag og nótt. Þar sem rokkið hvín í gluggum og á göflum. Þar sem fínt þykir að vera útriðinn til augnanna og með nálagöt á delanum eins og Keith fokking Richards. Fínt að eiga tvö burðardýr fyrir börn, með átján kíló innvortis og feit fyrir vikið, eins og Ozzý skjálfhentur-rúnkari Osbourne. Sem vankaður vaknar á Hotel California búinn að smyrja sínum innri manni á veggi og loft með tilheyrandi lykt. Það er kúkur á veggjunum í hverju einasta táningsherbergi heimska heimsins og foreldrarnir standa brosandi í gættinni: ?Góða nótt, ástin mín.???Æ, mamma éttu skít. Éttu skítinn úr Ozzy?. Þið tignið skríl sem tryllir skrílinn. Jaggerinn hamrar dætur ykkar eftir sjóið. Brosandi mæta þær við morgunverðarborðið með harðsperrur í leghálsinum og rokkbrund í maga. Og rífandi stoltir kallið þið á konuna frammi í stofu: ?Ragga! Hún Bára Lind var að sofa hjá Mick Jagger í nótt! Og hún tottaði hann víst svona rosalega vel! Hann var víst svona svakalega ánægður!? Og frúin kemur ljómandi inn í eldhús: ?Ha? Í alvöru? Er hann að segja satt? En æðislegt! Til hamingju, elskan mín!???Takk, mamma. Hann sagði að hann hefði ekki verið tottaður svona vel síðan hann var með konunni hans Keiths Richards. Það er mjög langt síðan, sko.???Frábært, Bára Lind, frábært!?

Þetta er minningargrein um mömmu.

Það breytir ekki því að viðbjóðskláminu var veitt út í meginstrauminn án þess að nokkur tæki eftir. Endaþarmssamfarablóð hefur litað líf okkar. Óharðnaðar anorexíur læra sínar anal-lexíur og súpa seyðið af stálhörðum steraböllum. Litlu stóru brjóstin þeirra tifa sorglega hvít utan á rifjastykkinu eins og björgunarvesti. Og allt sett á netið.

Þið tignið skríl sem tryllir skrílinn sem þið eruð. Skrílvæðing heimsins hefur átt sér stað. Með markvissum hætti síðan ?69. Fljótandi hafa þau flotið að feigðarósi, þjóðfélögin kennd við vestur og verstu kenndir; hippahöfuðin reykmild og afturhallandi á yfirborðinu, eins og vatnaliljur með útblakandi hári. Við höfum fyrir löngu náð okkar feigðarósi og súpum nú saltan sjávarkeim með blöndu af skólpi og skopi. Ó, hvar er nú bergvatnslindin tæra sem skáldin supu af. Og svimafagrir svanir ...

Ekkert lengur tært. Allt gruggugt.

Og skrílslegt.

Eitt skitið þriggja mínútna lag með írsku hljómsveitinni Þú líka er fyrirferðarmeira í vestrænni menningu en öll ljóð enskrar tungu samanlögð. One er eina ?ljóðið? ort á ensku sem sextán kynslóðir sextán landa kunna utanbókar. ?Did I disappoint you? Or leave a bad taste in your mouth?? Já. Bono er The Bard og neyðist til að ganga á pallaskóm til að sýnast vera það sem þið haldið að hann sé. Samkvæmt Google er hann stærri en Goethe.

Spitze.

Þið búið í Rokklandi. Ég bý í Rokklandi. Ég er andófsmaður í Rokklandi. Þetta er fyrirlestur á rokklensku. Skilaboð mín eru skemmd af þeirri tungu sem þau mælir. Byltingartilraun í Rokklandi mun ætíð mistakast. Þegnarnir munu aldrei heyra í mér gegnum hávaðann. Eina leiðin til að ná eyrum þeirra liggur í gegnum rokkið. En ég mun aldrei rokka. Ég verð aldrei rokkari. Því mun ég deyja í Rokklandi. Nema landið verði hernumið af fokklenska hernum.

Rokk, fokk og peningaplokk. Það er líf mitt. Líf ykkar. Líf þessa tíma sem ekki þolir neinn tíma.

Über allen Gipfeln ist Rock und keine Ruh.

Billy Crystal og Robin Williams drápu mömmu. Þeir kyrktu hana með lélegum söguþræði; hertu að hálsi hennar og hentu henni svo í kistuna, glatkistuna miklu. Við stóðum, systkinin, á grafarbrún á Nafabrún og fylgdumst með henni síga. Ofan í gröf sem hafði verið tekin við hlið örgrafar Dóra bróður og gervigrafar pabba. Það lagði upp af henni kreditlista; hvítir stafir stigu upp úr gröfinni líkt og reykur sem taldi upp alla þá sem eyðilagt höfðu líf hennar: Sex þúsund þrjú hundruð og sjötíu leikstjórar.

Viddi bróðir grét allan tímann. Ég grét ekki. Mamma dó eins og páfinn. Hún var löngu dauð áður en hún dó. Vestræn menning eyðilagði hana.

Vertu samt sæl.

Þinn Böddi

8.1.05

Kemur einn þá önnur fer

Lífið er dularfullt. Eignaðist strák í fyrrakvöld og missti móður í gær. Mamma dó í gær. Í rúminu. Í svefni. Fundum hana kalda, bræðurnir. Halldóra látin. Dóra dáin. Mamma farin. Duh. Þetta er meiriháttar fokk. Ég kann ekkert á sorg og er frekar asnalegur allur. Dagurinn er 200 kg hnullungur sem ég reyni að velta ofan af mér. Nú fer Fiskiðjan líklega á hausinn þannig að þetta er ekki bara farg á okkur systkinin heldur bæjarfélagið í heild. Það vita allir sem vitað geta að það er mamma sem hefur haldið þessu fyrirtæki á floti undanfarin ár. Hún frétti af þeim nýfædda áður en hún fór. Smá huggun í því. Og fjölskyldan heldur hausafjölda sínum þrátt fyrir brottför ættmóðurinnar. Nú er að redda útför, krönsum og kistu, lækni, lögfræðingi og presti, öllum þessum fylgihlutum dauðans. Mikið drep sem hann er.

7.1.05

Þrettándakvöld kl. 20.37

Strákur. 13 merkur. Frekar krumpaður. Eins og faðirinn.

3.1.05

Símtal í kvöld

Dagga er farin suður á Sjúkrahús. Hat sein Wasser verloren. Læt ykkur fylgjast með. Og Viddi bleib ruhig.

Trukkur og díva

Árið byrjar með trukki. Sem tengist ákveðinni dívu. Get ekki alveg farið með alla þá sálma, sæmis vegna, en það kemur í ljós, innan skamms. En Viddinn er enn hjá okkur mömmu og fer enn með sama brandarann. Hann er búinn að segja þennan á hverjum degi síðan á aðfangadag (þegar hann fékk hann í jólagjöf frá barnsmóður sinni, Smáru Lind Hafsteinsdóttur): "Paris Hilton er víst byrjuð með Radisson Sas." Annars eru hlutirnir í ákveðinni biðstöðu hjá manni eins og vera vill hjá fólki sem er nýbúið að ljúka ári í lífi sínu. Dívan á eftir að skila trukknum af sér.

1.1.05

Skagfirðingur ársins

Hérna er hann, ykkar maður.


Og gleðilegt ár - BHS

This page is powered by Blogger. Isn't yours?