26.12.04

Kristur meðal snauðra

Jóladagur bar með sér boð. Frammi í Varmahlíð hjá systur kenndri við Skuld. Siþþi mágur kom og sótti mannskapinn, kastaði til okkar kaðli niður úr sex metra háum sterajeppanum. Viddi sveiflaði sér um borð, eldvanur leikarinn, og hífði síðan mömmu eins og frostvanur landhelgisþyrlumaður eftir að ég hafði reipilagt þá gömlu niðri á götunni. Sjálfur kleif ég þrítugan gúmhamarinn með slátt í hjarta. Að keyra á svona jeppa líkist ekki bílferð, minnir heldur á svifnökkva, án þess að ég hafi komið inn í slíkan farkost. Boðið fór fram í stofu þeirra hjóna, frammi fyrir stærsta skermi Norðurlands sem þakinn var helvítis hálfvitum allan tímann sem við jöpluðum á lambinu. Mamma var ofurseld ferlíkinu og sagði ekki orð fyrr en við vorum að tygja okkur. "Já, ætli sé ekki best að fara að koma sér". Annað sagði hún ekki allt boðið sem var þó hannað til að efla með okkur tengslin. Siþþi sagði heldur ekkert, nema það að kjörgripurinn hefði kostað hann einn mánuð á gröfunni og fengist í BT á Akureyri. "Þau eru víða tekin núna, heimabíóin. Og nú getum við horft á allar spólurnar okkar aftur. Náum auðvitað betri nýtingu á þetta þannig, og þurfum þá ekki að kaupa nýjar á meðan, þannig að ég vil meina að þetta margborgi sig." Hló svo eins og tístandi hænuungi. Þannig var það. Ég þagði svosem líka mestan part og fylgdist með Skuldu fitna á meðan Viddi malaði eins og steypustöð um muninn á BT og KS og CD og JMJ og DVD og MTV og GSM og GPS og LCD og LSD. Hann talaði eins og einhver sunnanfrelsari, einhver langt að kominn sérfræðingur sem vissi allt betur en við fávitarnir fyrir norðan og lét sitt mikla sviðsljós skína eins skært og hann gat. Krakkarnir mændu á hann eins og börn á Krist. Já, einmitt. Réttast sagt minnti hann helst á Krist á meðal snauðra, eins og þetta rammíslenska jólaboð væri gamalt málverk eftir óþekktan endurreisnarmeistara sem maður gengur framhjá í Gemäldegallerie án þess að nenna að tékka á nafni listamannsins. Þetta var óbærilegt. (Sorrý, systkin). Börnin litu samt vel út. Höfðu fitnað heilmikið síðan í sumar.

Comments:
sumir kunna ekkert þakklæti
 
Þú ert bara heppinn að hún systir þín sé lítið á netinu og að ég segi heni ekki frá þessu því það ætla ég ekki að gera þér til geðs. Þetta er ekkert annað en fyrirlitleg framkoma í garð sinna nanustu.
 
Manninum er greinilega ekki viðbjargandi.
 
luser
 
Arsæll ætti að sja til þess að þessu bloggi se lokað. Þetta tekur ut yfir allan þjofabalk og er siður en svo goð auglysing fyrir staðinn eða hitt þo heldur. Og það um jolin.
 
Ég hef verið að hugsa um að halda áramótatónleika til styrktar einhverju góðu málefni sem gæti þá fengið hluta af aðgangseyrinum. Þú virðist vera kunnugur á Sauðárkróki. Veistu af einhverjum heppilegum sal? Og værir þú til í að bóka hann og sjá um auglýsingar og aðgöngumiða og þess háttar?
Með bestu kveðju,
Garðar Hólm
P.S. Veistu um eitthvað gott málefni sem mundi trekkja?
 
Segðu mér, Böðvar, er móðir þín enn á lífi? Ég kynntist henni ofurlítið á sæluviku hérna um árið. Það var meðan ég var enn í söngnámi. Með leyfi að spyrja hvenær ertu fæddur?
 
Blesar gamli. Sé að þú verður líklega ekki kosinn Skagfirðingur ársins þetta sinnið, herra Böðvar Bölvar. Og aðrir að gera sér djókmat úr þér. Hje hje. Jólin voru jólin hjá mínum. Skrapp með Dietmar og INgeborg til Hanover, dvöldum þar í ofboðshúsi foreldra hennar (þau til Egypt, ríkar tíkur). Big time slökun á landesbænum með bjór og bókum. Las loks Die Korrekturen eftir Jonathan Franzen. Skil ekki hæpið. Frekar venjuleg familiengesichte þannig séð. Kannski bara vegna þess að dúdinn lítur út eins og photo-modell. Kannski málið. "Láttu fallega fólkið skrifa fyrir þig". Ég er kominn aftur í stóra B-ið. Reyni að klára skræðuna fyrir áramót og sendi þér vonandi sample á nýja árinu. Bis zum spaeter, mein Freund. Ekki fara þér að voða á gamlárs. Muna gleraugun. Ga ga. - Cold Stockings
 
Skrifa ummæli<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?