25.12.04

Fangadagskvöld

Aðfangadagskvöld í Roklandinu var þrímennt. Ég, hæstvirtur bróðir Viddi og mamma. Sú gamla bauð upp á hamborgarahrygg og Marlboro. Við þáðum báðir bæði, svona upp á jólin að gera. Viddi fékk möndluna og möndlugjöfina (lopahosur og nýja Geirmundardiskinn. Schade). Aðrar gjafir voru mest prjónaðar, hand- og vél-. Mamma gaf mér KS-peysu og ónefndan reyfara. Ég fékk tár í sál yfir því að hún skuli ekki þekkja mig betur. Viddi gaf mér handbók fyrir fífl sem geta ekki að skrifað en langar samt til að skrifa. Það er semsagt handbók fyrir þá sem vilja skrifa kvikmyndahandrit. Ég á aldrei eftir að opna þá bók og get ekki skipt henni nema fara suður. Bið hann sjálfan kannski bara að gera það fyrir mig. Sátum svo með mömmu og horfðum á einhverja stillimynd að sunnan. Fólk hreyfir sig lítið í kirkjum. Loks var samveran orðin óbærileg og ég pillaði mér niður í bin Laden hellinn góða. Því miður kom V á eftir og vildi spjalla, með koníak í hendi. Ég mátti hlusta á lýsingar á vinnutilhögun í Latabæ, ræðuhöld Magnúsar Scheving í matartímum og alla þá geðveiki, langt fram á nótt. V er heltekinn af þessum bransa sínum. Það var ekki fyrr en ég spurði hvað væri að frétta af Kötlu Mjöll að hann þagnaði og fór síðan upp skömmu síðar. Það lítur út fyrir að Katla muni gjósa strax í janúar. Loksins loksins klukkan þrjú um jólanótt slapp ég svo hingað inn á netið og fann frelsi einstaklingsins á ný. Fjölskyldur eru fjölbreyttar skyldur og lítil gleði. Aðfangadagur fangadagur.

Comments:
Rammheilagar jólakveðjur héðan úr Kantaraborg, kæri vin. Hátíð með hefðbundnu sniði hjá okkur hjónaleysunum. Dóra lét móður sína koma með kjötið og því urðu þetta "fremur ísl en ensk" jól eins og þú myndir orða það. "Fangadagskvöld" fannst mér ansi snjallt hjá þér. Bloggsíðan þín er að verða mér líkt og Independent og Guardian; jafn sjálfsagður berandi dagsins og eggin og baconið. Og betri tengingu við heimahagana er vart að fá. Sjálfur fékk ég það sem ég hafði óskað mér: Dóra mín gaf mér nýju Mao bíógrafíuna (eftir Jon Halliday). Eins og þú veist þá kitlar fátt meir minn innri pervert en hrakfarasögur af kommúnismanum og ofanflettingar af hetjum hans helstum. Það er nú bara eitthvað sem ég verð að eiga við mitt flókna sjálf. En það er alltaf jafn gefandi að orna sér við heimsku fortíðarinnar. Bestu kveðjur sunnan af Englandi - Þröstur og Dóra.
 
Skrifa ummæli<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?