17.10.04

Helmingur lífsins

Birti hér loksins loksins þýðingu mína á þessu frægasta kvæði Hyldjúps.

Hälfte des Lebens

Mit gelben Birnen hänget
Und voll mit wilden Rosen
Das Land in den See,
Ihr holden Schwäne,
Und trunken von Küssen
Tunkt ihr das Haupt
Ins heilignüchterne Wasser

Weh mir, wo nehm' ich, wenn
Es Winter ist, die Blumen, und wo
Den Sonnenschein,
Und Schatten der Erde?
Die Mauern stehn
Sprachlos und kalt, im Winde
Klirren die Fahnen.

Helmingur lífsins

Grænt með gulum perum
og gnægð af villtum rósum
lýtur land
að lygnum fleti
og svimafagrir svanir
drukknir af kossum dýfa
höfði í heilagt vatn.

Ó, hvar finn ég aftur
blóm og sumarblíðu
er breiðir vetur
yfir skamman dag með drífu?
Steinveggir standa
í stillum og þegja.
Hanar í veðrum vaka.


Spurning með lokalínuna. Höski vinur vor ljóðverkamaður við Wannsee er fjandanum ósáttari við hana. Finnst hún of poppuð. Of mikið Eldjárn. Slíkt fari Hölderlin illa. Nú nú: "im Winde klirren die Fahnen" þýðir í raun bara: vindhanar skrölta í vindinum. (Fahnen=Wetterfahnen) Mér finnst hinsvegar flott að hafa þetta "Hanar í veðrum vaka". Það hefur víða merkingu á því ylhýra. Það er vísun í hanann sem vekur: þessir hanar vaka hinsvegar allan veturinn, geta ekki sofið sökum illviðra. Og það er líka vísun í "að láta í veðri vaka". Um leið er hér verið að tala um vindhana og í stað þess að nefna skrölt þeirra berum orðum á lesandinn að heyra það í línunni. Gallinn við þessa helvíti frábæru línu er samt sá að lesandinn þarf eiginlega að þekkja orginálinn til að vita að verið er að tala um VINDHANA en ekki lifandi gogga. Verð líklega bara að gera þá kröfu. Línan er of flott til að breyta henni eða útskýra. "Vindhanar í veðri vaka" hefði verið of mörg atkvæði og auk þess ofstuðlað og of- á allan hátt. Stóla bara á að Fólksi fatti þetta. (Allavega eftir þennan lestur.) Ljóðið ratar til sinna og allt það kjaftæði. Hinir éti skít.

Comments:
Blesar. Glæsileg þýðing hjá þér, Böddi. Samt er það, eins og þú segir, spurning með lokalínuna. Þú nefnir ekki hetjuna þína H.Pétursson til sögunnar. Hann þýddi þetta í smákveri sem heitir "Lauf súlnanna" (title sucks) og kom út árið 1997. Fann hana a Haskolabokasafninu her. Lokalínurnar eru svona hjá honum:

Múrveggir þruma
þöglir og kaldir, í gjósti
gnurra veðurhanar.

Er alls ekki að segja að þetta sé betra hjá honum en þér og er hann þó skáld en þú ekki. Ekki beint allavegana (sorry, man). Bara til að... já, hefðir mátt nefna þetta í blogginu. Margar kveðjur fra B. - H
 
Sælir félagar. Ég verslaði mér á dögunum eintak af Penguin Classics útgáfunni af enskum þýðingum á Hölderlin, í meðförum hins ágæta Michaels Hamburger. Ykkur til fróðlesningar birti ég hér síðustu línurnar í Half of Life:

The walls loom
Speechless and cold, in the wind
Weathercocks clatter.

Eigum við ekki að leyfa lesendum að dæma hver gerir best? BHS, HP eða MH? Hér er annars allt í sómanum. Fengum sá sendingu af því hvíta um helgina. Kemur einstaklega vel út á enskum yfirstéttarblettum.
 
Á miðri ævi

Með gulum perum slútir
og gnótt af villtum rósum
landið að vatninu,
þið yndislegu svanir,
og ölvaðir af kossum
dýfið þið höfði
í lygnu sem er helgihrein.

Æ ég, hvar finn ég mér, þegar
fallinn er á vetur, blómin, og hvar
sólskinið
og svala forsælu jarðar?
Múrveggir þruma
þöglir og kaldir, í gjósti
gnurra veðurhanar.

(H.Pétursson)
 
Skáldið bregst ekki. Fallega gert hjá meistaranum.
 
Mér finnst skáldið ekki í sínu besta formi í þessari þýðingu. "Æ, ég" er ekki íslenska.
 
HALF OF LIFE

With yellow pears hangs down
And full of wild roses
The land into the lake,
You loving swans,
And drunk with kisses
You dip your heads
Into water, holy-and-sober.

But oh, where shall I find
When winter comes, the flowers, and where
The sunshine
And shade of the earth?
The walls loom
Speechless and cold, in the wind
Weathercocks clatter.

(M. Hamburger)
 
Þessi Hamborgari er jafn vondur og þeir í Varmahlíð. Er Döstinn að grínast?
 
Skrifa ummæli<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?