22.9.04

Mínus einn

Viddi bróðir bauð mér í mat í gærkvöldi. Nýju skutlan heitir Katla Mjöll. Hún á eftir að gjósa í vor. Spái ég. Heimilið er tveggja vikna gamalt í sjötugu húsi. Ég breyttist í Völu Matt á meðan Katla útskýrði fyrir mér hvað ætti að koma hvar og hvernig hvaða herbergi yrði á meðan Viddi kokkaði indverskan kjúkling. Katlan er dísæt eins og hinar allar og verður örugglega fljót að finna nýjan mann þegar Viddi yfrgefur hana þegar krakkinn er orðinn hálfs árs. Hjó eftir því að á heimilinu var aðeins tvær bækur að finna. Tvær trendí matreiðslubækur. Í naumhillu í stofunni voru aðeins myndbönd og diskar. Svona er nýja lífið. Viddi hélt áfram að tala um KVIKMYNDINA. Vill að ég skrifi handritið. Það er skrýtið, vegna þess að ég hef aldrei skrifað neitt nema blogg. Samt kannski ekki skrýtið þar sem hann hefur aldrei skrifað neitt nema nafnið sitt. Katla kann að þegja og þagði heilu hálftímana undir þessu múvíbulli í bróður mínum. Hún leggur það á sig fyrir "frægðina". Fyrir þennan mýflugufót af frægð sem í því felst að vera sambýliskona mannsins sem talar inn á teiknimyndir fyrir Bangsímon. Ég var hálf dapur þegar ég gekk "heim" á Flókagötuna. Fór til augnlæknisins. Mínus einn. Ég er mínus einn. Mínus bróðir minn.

Comments: Skrifa ummæli<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?