22.9.04

Hróp

Ég sé bestu menn minnar kynslóðar leidda eins og hökufeita heimilisketti meðfram frostköldum kistum, inn í myrkviði kexsins og pexsins. Hlekkjaðir á fótum og höndum með æpandi feitum börnum æmta þeir hvorki né skræmta heldur afhenda bljúgir vinnudaginn við kassann og hlaða síðan jeppann fullan af ónauðsynjum. Stynja svo nett undir stýri áður en umsjónarkonur þeirra beina þeim með naglalökkuðum vísifingri (beittasta vopni nútímans!) út af stæðinu og inn á það næsta. Fullnuma í feminískum ballarbrögðum fóðra þær sífitnandi nagdýrið sem býr innra með hverjum karlmanni - naggrísinn sem nagar helvítis samviskuna!

Ég sé bestu menn minnar kynslóðar hverfa inn í loðfóðruð leggöng, inn í flísalagt nöldur, inn í varalituð anddyri, inn um talandi glerdyr. Undir lágværu muldri létttónlistar, sem fellur yfir þá úr svörtum hátölurum eins og ilmvatnsskúr, ráfa þeir meðfram hundrað hilluröðum fullum af mismunandi útfærslum á sama helvítis blendernum, á svipinn eins og uppstoppaðir refir: Augun glansandi af heiladauða og eitt-sinn-tannbeitt brosið fyrir löngu frosið, en samt það eina sem minnir á gamalt eðli; veiðieðli karlmannsins. Þeir sporta því líkt og fálkaorðu frá afa gamla en hið innra hefur eðlið skipt um gogg. Karlmaðurinn er hættur að drepa. Hann er ekki lengur ránfugl heldur vaðfugl. Svífur ekki lengur yfir sveitum heldur hangir niðri í fjöru, á spóaleggjum með uppþembdan kassa og goggar sínum goggi í tölvuskjá; í von um eitthvað bitastætt sem hafsjór fróðleiks kastar á land. Honum dettur ekkert í hug lengur. Pikkar það bara upp af netinu, dregur það upp úr sandinum með sínum langa goggi og áframsendir svo kollegunum.

Comments:
testing testing, getur maður orðið skáldsagnapersóna og kommenterað hér - er lífið skáldskapur, kommentakerfið lokað eða himinninn heiður og hvar endar verk og mannvera tekur við taugaendunum? Svarar hrópandinn annars? Bara að prófa, skammhlaup.
Hermann
 
Skrifa ummæli<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?