19.9.04

Die Stadt

Sunnudagur í syndaborginni. Ævintýrin gerast enn. Sit hér við lyklaborð í steingleymdu skeljasandshúsi á Flókagötu. Það bara helvítis atvikaðist. Elli brá sér á netið og sneri fúll til baka. Sannleikurinn er eins og himinn yfir okkur. Maður býst aldrei við því að neinn líti til lofts. Einhverveginn í helvítinu hafði hann rekist inn í Rokland og séð gærdagsfærsluna um sig og sína og varð svona líka hrottalega reiður. Veit svosem ekki hvað það var sem fór svona í bakið á honum, en mínútum síðar stóð ég á götunni, undir ljósastaur í trúiðþvíeðaekki Teigahverfi. Náði sambandi við Samma, og mætti honum á Kringlukránni. (Hann fer aldrei neðar í bæinn.) Tókum einn yfirmáta plebbalegan góðborgara þar. Stólarnir höfðu tapað leiknum og þetta var eins og að snæða með þunglyndum frænda í geðlægð. Slapp loks og notaði fætur niður í bæ, tékkaði mig inn á þetta geðfatlaða gistiheimili við Flókagötu (sem S mælti með) og leit síðan við í knæpuhverfinu sem málleysingjarnir kalla 101. Hitti Balda Bíld á Næsta bar. Hef ekki séð hann í fimm ár. Hann er enn jafn hundleiðinlegur og hann var en skárri en allir rembingaslistamennirnir þarna. Baldarinn leiddi mig loks upp á Ölstofu þar sem R-víkur-reyturnar af Berlínargenginu sátu við krús. Reynir var í mestu stuðinu og tuðaði látlaust um Baugsmálið. Hverjum er ekki sama um átök yfirplebbans og þeirra nýríku? Fönix var þarna líka, gaf mér eld en brosti eins og við hefðum aldrei vaknað saman. Þvílík örtröð þarna þegar leið á nótt. Allir heilagir hestamenn helltu sér yfir mig og allt í einu skveraði sér inn um bölsins gætt engin önnur en Helga Sjöfn, kynbomban úr FNV. Heilsaði kurteislega, ég heilsaði til baka eins skýrt og ég gat þannig að henni skildist að ég væri kominn inn á geðdeild og það væri henni helvítinu henni að kenna. Helvítis merin. Það er reyndar henni að kenna hvert ég er kominn í lífinu. Kom þarna líka auga á Ólmar Píkur (svo nefndur af sjálfum sér. Nah, gut, ja.) Tromparinn stóð við barinn og kinkaði kolli án áfláts eins og honum væri borgað fyrir það. Hann var þarna með frú sinni, Slökum Tilla (þau litu út eins og hin óhjákvæmilegu hjónabandsvandræði sem í nöfnum þeirra felast). Erfitt að þykjast vera erlendis þegar maður er kominn í bæinn. Sem betur fór þekkti kappinn mig ekki þegar til kom. Annars væri ég ekki hér og nú. Samt gott að vita af einum reiðari en ég þarna úti. Maður er þá ekki eins mikið Felli. Endaði í partýi með Berlínarbykkjunum, heima hjá litlum loðnum ljóðara á Grettisgötu. Fönixinn lét sig hverfa. Ég skreið undir morguninn og inn á Flókagötuna eins og ég hefði búið hér í 17 ár. Verð líklega fram á þriðjudag. Augnlæknir á morgun. Kannski getur hann læknað þessar sýnir. Kannski getur hann fjarlægt þessa jólasveina úr augunum á mér. Æ æ, nú kemur gistigefarinn. Guð blessi hann og alla hans fitu.

Comments:
Ótrúlegt bróðir, að þú skyldir hafa séð mig þarna á þessum sullukrók, og ég staddur hér í Tyrklandi, heimalandi gargandi hæna og rýtandi svína. Ég á mér greinilega tvífara þarna í Undrað-í-leynum (101?)? Og konan mín, ef við getum kallað hana það, heitir ekki Slök Tilla, jafnvel þó vinstra brjóst hennar hangi langleiðina niður að nafla (en hún er einbryst frá fæðingu). Nei, hún heitir því heiðvirða nafni Vildan, og að orðaleikjagáska þínum ekki slepptum, þá vill hún HANN stundum. Þ.e.a.s. leyndarlim Ólmars P. Ikurs. Og hvernig geturðu sagt að ég sé reiðari en þú, hálfbróðir góður? Ég er alltaf jafn hress, nema þegar kerla gamla lætur sópinn vaða í hausinn á mér þegar ég ætti ? að hennar viti - að vera úti að buðlunga taði, gera ofan í eða hlúa að einhverju illgresi sem hún étur. Ég held ég hafi ekki orðið reiður í alvöru síðan nágranni okkar Hasan Hasbi starði einum of lengi á vörtuna sem ég er með undir öðrum nasavængnum. Þú veist hvernig hún er, sótsvört auðnuvarta með dálitlu fjólubláu undirlagi sem liggur út yfir vinulágina. Jæja, Hasan Hasbi, helvítið á honum, horfði skratti lengi á hana í það skiptið. Ég var að gera við dráttavélina, gamla IH-vél, og hann stóð þarna yfir mér og var eitthvað að stara ofan í andlitið á mér þar sem ég lá og horfði upp undir vatnskassann. Og þá sé ég allt í einu hvernig karlinn glottir og klórar sér undir nefið á sama stað og vartan er á sjálfum mér. Ég spurði hann þá hvern djöfull hann væri að gera? Hann sagði: Ekkert. Ég stóð þá upp og spurði hann hvort hann væri að gera lítið úr vörtunni, en hann þóttist bara þurfta að klóra sér. En í sömu mund er einsog djöfullinn hlaupi í kvikindið og hann stekkur á mig og reynir að kreista vörtuna eins fast og hann gat. Ég trylltist auðvitað og lét hann finna fyrir því. Hnefaði upp í hann, því hann er stór andskoti, en ekki með betri árangri en svo að hnúarnir á mér rifnuðu til blóðs. Ég varð líka svo helvíti reiður og æstur af þessu brölti að það sprakk æð í hægra auganu á mér. Hasan Habi var aftur á móti einsog nýsleginn túskildingur eftir þessar aðfarir mínar, þessi helvítis trölli, en ég var allur einsog troðinn niður af fíl. Ég hef því alveg látið það vera sig að reiðast mönnum, eða nokkru, því þegar ég reiðist, þá enda ég venjulega sjálfur á sjúkrahúsi. Og mömmu reiðist ég bara þegar hún kemur með kústinn, og læt hana þá fá nokkrar velvaldar blótþulur.

Annars er allt gott að frétta. Vona að ég heyri í þér, og láttu þennan tvífara minn alveg eiga sig. Skrítið annars að þú skulir ekki hafa yrt á hann, ég er nú einu sinni hálfbróðir þinn, jafnvel þó ég sé Tyrki.

Olmar
 
Skrifa ummæli<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?